154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

880. mál
[11:30]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra talar um að um heimild sé að ræða en ekki skyldu. Ég vil samt meina að heimildin þurfi að fela í sér skyldu. Þó að mjög mikið af leiguhúsnæði sé í eigu einstaklinga hafa stóru leigufélögin alveg gríðarleg áhrif á þennan markað og stjórna honum í rauninni. Við þurfum meira af húsnæði. Við þurfum uppbyggingu en ekki að húsnæði sem er til sé í annarra eigu. Það breytir í raun engu fyrir húsnæðismarkaðinn nema hugsanlega til hækkunar. Það er líka staðreynd að við á Íslandi höfum alls ekki góða reynslu af samtryggingu fjárfesta, eða ég veit ekki hvað við eigum að kalla það, sem virðast alltaf hugsa fyrst um sinn hag og sinna félaga áður en þeir huga að hag almennings. Ég tel því nauðsynlegt að þetta innflæði inn á markaðinn, sem er upp á 200 milljarða, verði ekki bara til þess að hækka verð á því sem er til en leiði ekki til uppbyggingar.